10. maí 2024

Alcoamótið í fimleikum


Það var sannkölluð fimleikaveisla í íþróttahúsinu á Egilsstöðum þegar Alcoamótið í fimleikum fór fram fyrir fullu húsi áhorfenda í lok apríl. Keppendur voru tæplega 300 talsins á aldrinum 4-21 árs en öll æfa þau fimleika með Hetti.

Díma Írena Pálsdóttir, yfirþjálfari Fimleikadeildar Hattar, segir mótið mikilvægt fyrir deildina. "Hugmyndin á bakvið Alcoamótið er í raun tvíþætt. Í fyrsta lagi er þetta frábær leið fyrir aðstandendur og yngri fimleikaiðkendur til þess að sjá keppnishópana okkar en þar eru flottar fyrirmyndir sem hafa náð langt í íþróttinni og hafa til dæmis orðið Íslandsmeistarar, keppt á Norðurlandamóti og sinnt landsliðsverkefnum. Í öðru lagi er þetta góður undirbúningur fyrir keppnishópana okkar sem kepptu á vormóti yngri flokka helgina eftir Alcoamótið.”

Díma segir mörgu að fagna hjá fimleikadeildinni, árangur keppnisliða Hattar hafi verið góður í vetur og iðkendur deildarinnar hafa aldrei verið fleiri. “Höttur sendi 5 lið til keppni á vormótið og komu öll lið heim með verðlaunapening. Keppnishópur drengja nældi sér í 1. sæti af 9 liðum í stökkfimi hluta,” segir Díma, sem er stolt af árangri Hattar.