15. mars 2024

Viðtal við Fernando Costa, forstjóra Alcoa Fjarðaáls


Eftirfarandi viðtal birtist í Austur-glugganum og er unnið af Gunnari Gunnarssyni. 

Fólkið heilsar brosandi á hverjum morgni 
Brasilíumaðurinn Fernando Costa tók í byrjun nóvember til starfa sem forstjóri Alcoa Fjarðaáls. Segja má að hann sé fæddur inn í Alcoa, faðir hans vann fyrir fyrirtækið og Fernando hefur starfað innan samsteypunnar frá tvítugsaldri. Leið hans til Íslands lá um Bandaríkin en hann segist staðráðinn í að gera sem mest úr tækifærinu til að vinna hérlendis, sem aðeins gefist honum einu sinni. 

Fernando er fæddur í Minas Gerais fylkinu í suðaustanverðri Brasilíu, þar sem Alcoa var og er með starfsemi. Faðir hans starfaði þar en fjölskyldan flutti þegar Fernando var fjögurra ára, eftir að fjölskylduföðurnum bauðst vinna í nýju álveri í São Luís í Maranhão fylki í norðaustanverðu landinu. Þar fæddist systir Fernandos, sem er sex árum yngri. Hann segir fjölskylduna hafa unað sér vel á svæðinu, í nágrenni við ströndina og búi þar enn þótt faðirinn sé hættur að vinna og stór frændgarður búi suður í Minas Gerais. 

Fernando byrjaði að vinna hjá Alcoa í Brasilíu árið 2002, þá um tvítugt, eftir að hafa lokið námi í verkfræði. Hann vann sig upp í heimalandinu áður en honum bauðst að flytja sig um set til Bandaríkjanna. Hann byrjaði í Washington-fylki, í Wenatchee álverinu, sem síðar var lokað. Hann færði sig þá um set og fór að vinna sem rekstrarstjóri fyrir dótturfélag Alcoa sem vinnur vörur úr álinu, til að mynda prófíla í glugga eins og þá sem eru í skrifstofubyggingunni á Reyðarfirði. Þá bauðst honum að stýra skautsmiðju Warrick álversins í Indina-fylki. Frá 2020 hefur hann verið stjórnandi Alcoa Business System (ABS) í Norður-Ameríku, starfsframakerfi samsteypunnar sem miðar að því að þjálfa fólk upp í réttar stöður innan Alcoa. Með því fluttist Fernando í höfuðstöðvarnar í Pittsburgh.  

Það var síðan síðasta haust sem tækifærið til að koma til Íslands opnaðist. „Það var ekki hrein tilviljun. Í gegnum ABS hafði ég nýtt færið til að læra um bæði rekstur og tæknina að baki álverunum. Ég bætti við mig MBA gráðu til að geta fengið þetta tækifæri,“ segir Fernando.

Einstök lífsreynsla að fá að koma til Íslands 
Hann útskýrir að í fyrra starfi hafi hann tilheyrt þeirri deild Alcoa sem ætlað sé að tryggja stöðugleika í rekstri ákveðinna eininga. Hann hafi til dæmis verið tilbúinn að taka tímabundið við álveri sem koma þyrfti á rétt ról. En hann segir að tækifærið til að stýra álverinu á Reyðarfirði hafi alltaf verið eftirsóknarvert.

„Þetta er ekki bara fagleg reynsla fyrir mig heldur líka lífsreynsla. Ég er bæði bandarískur og brasilískur ríkisborgari. Ég gæti hvenær sem er unnið í þessum löndum eða tekið fljótlega við álveri í Bandaríkjunum eða Kanada. Að búa og starfa hér er tækifæri sem gefst bara einu sinni á ævinni, hvort heldur sem er fyrir mig eða fjölskyldu mína. Við viljum geta horft til baka og sagt að við þekkjum Ísland og íslenska menningu því við höfum búið þar.  Það var því nú eða aldrei að taka starfinu hér. Þess vegna sagði ég strax já þegar starfið bauðst.“

Álverið á Reyðarfirði er það nýjasta sem að fullu er í eigu Alcoa. Það er því í miklum metum innan samsteypunnar. „Það er ein mikilvægasta eign fyrirtækisins og hefur mikla möguleika. Þess vegna eru væntingar um að Fjarðaál verði stöðugasta álver Alcoa.“ 

Markmiðið að vera vinnustaðurinn sem fólkið velur 
Aðspurður um helstu áskoranir í rekstri álversins á Reyðarfirði nefnir Fernando starfsmannaveltuna sem verður til þess að þekking tapast. „Ég get sagt, af fenginni reynslu innan ólíkra eininga Alcoa, að starfsfólk Fjarðaáls er ótrúlega fært. En veltan á því er eitt af því sem kemur í veg fyrir að við náum eins miklum stöðugleika og kostur er á. Veltan er mismunandi á milli deilda en þar sem hún er mest nær hún 20% og það veldur okkur áhyggjum.

Atvinnuástandið hér á Austfjörðum er ótrúlega gott og atvinnuleysi lítið. Hér eru ótrúlega öflug fyrirtæki. Það getur þó skapað áskoranir fyrir fyrirtæki því starfsfólk getur valið á milli vinnuveitenda. Þess vegna verðum við að verða vinnustaðurinn sem fólkið velur. 

Árið 2024 leggjum við áherslu á þrjú atriði í rekstrinum: Fólkið er það mikilvægasta. Hin eru stöðugleiki og framleiðni. Hvað fólkið varðar þá er það okkar markmið að verða sá vinnustaður sem fólkið velur. Við erum með frábæra stjórnendur sem eru í góðum samskiptum, flotta hvata og frábært og öruggt vinnuumhverfi. Við vitum hvað við þurfum að gera en það tekur tíma.

Stærsta málið er að skilja hvað fólkið vill. Það er áskorun því fólk hefur ólíkar þarfir eftir því á hvaða æviskeiði það er. Starfsmannaveltan er hæst hjá fólkinu sem hefur verið styst, hér er hún á fyrstu tveimur starfsárunum. Við erum með nýja kynslóð sem hefur aðrar væntingar til starfsþróunar sinnar. Þessir einstaklingar eru ekki endilega vissir um að þeir vilji starfa hér næstu 20 árin. Ef við getum bætt úr því þá dregur það verulega úr starfsmannaveltunni.“

Fara út í skálana á hverjum degi 
Vinnuumhverfi er mismunandi á milli landa. Fernando hefur reynslu frá Brasilíu og Bandaríkjunum, en kemur nú inn á evrópskan vinnumarkað. „Ég hef hugsað mikið um þetta. Ég held að ég hefði ekki getað farið beint frá Brasilíu og hingað, það hefði verið of mikið menningarsjokk. Það sem ég skynja í menningunni hér er að starfsfólkið er vel þjálfað og ákveðið í að standa sig vel.

Sérhvert álver þarf að takast á við sínar áskoranir. Þær geta verið í rekstri, eða tækni, svo sem ef búnaðurinn er orðinn gamall, eða í starfsfólkinu. Menningin á vinnustaðnum er trúlega flóknasta viðfangsefnið því það er flókið og tekur tíma. Að mínu viti er Fjarðaál með afar hæft starfsfólk sem auðveldar okkur vinnuna. Þjálfun starfsfólksins hér og vilji þess til að takast á við breytingar eða reyna nýja hluti er mjög mikill samanborið við aðra staði sem ég hef unnið á, án þess að ég lasti þá. Við viljum tengjast fólkinu og búa til liðsheild enda er eitt af einkunnarorðum okkar: „hugsum sem heild“ (one team mindset). 

Liður í því er að framkvæmdastjórar Alcoa Fjarðaáls fara út í starfsstöðvarnar á hverjum morgni klukkan 9:20. „Stjórnendahópurinn verður að upplifa hvernig álverið er í raun. Við getum ekki bara haft það notalegt hér á skrifstofunni með útsýni yfir fjörðinn á meðan starfsfólkið vinnur í miklum hita. 

Við getum ekki vænst þess að fólkið leggi sig allt fram ef við tengjumst því ekki. Ef okkur gengur vel þá erum við í því saman að sama skapi þá getum við ekki afneitað þeim sem gengur illa. Við verðum að horfa sömu augum á verkefnin. Við verðum líka að skynja það ef vinnudagurinn er erfiður.

Þess vegna fer ég að minnsta kosti einu sinni á dag út í verksmiðjuna. Allur stjórnendahópurinn gerir það í að minnsta kosti klukkutíma á dag. Við gerum þetta ekki til að finna hvað er að heldur til að hitta fólkið og tryggja að það sé öruggt og til að liðsinna því. Við skiptum okkur í hópa, sumir fara í kerskálann, aðrir í steypuskálann og svo framvegis. Þau láta vita af sér og fá að fylgjast með til að kynnast starfinu. Ef tækifæri er til þá veita þau leiðbeiningar, líka þegar gengur vel. Þá gefum við hrós, segjum að við höfum fylgst með störfum viðkomandi, hann sé að gera allt rétt og svo framvegis. Mín reynsla er að fólk sé ánægt með þetta og þakki okkur fyrir að líta við.“ 

Fjölskyldan ánægð á Reyðarfirði
Fernando býr á Reyðarfirði ásamt konu sinni og tveimur sonum, sem verða sjö og fimm ára í vor. Eiginkona hans, Daniela, er brasilísk, einnig uppalinn í Minas Gerais þótt þau hafi kynnst í Maranhão. „Hverjar eru líkurnar á því í 220 milljón manna landi?“ spyr hann.

Hann segir þau ánægð hérlendis. „Við höfum verið hér í þrjá mánuði og þeir hafa verið nákvæmlega eins og við óskuðum okkur: ótrúleg reynsla. Fjölskyldunni finnst frábært að vera hér. Konan mín er ævintýragjörn og elskar náttúruna. Ég var alltaf viss um að hún yrði ánægð hér. Strákarnir eru líka ánægðir. Fyrsta daginn sem þeir fóru í skólann var stór skafl fyrir utan og þeir voru að renna sér niður hann. Þegar þeir komu heim sögðu þeir okkur frá því hvað það hefði verið gaman að gera það með hinum krökkunum.“ 

Fernando hefur ekki farið frá landinu síðan hann tók við, hann segir verkefnin vera næg þótt hann viti að hann þurfi að taka sér frí eftir einhverja mánuði. Fjölskyldan skrapp aðeins til Reykjavíkur yfir jólin. Hann segist ekki hafa upplifað neitt menningarsjokk enn og að honum hafi verið vel tekið. „Samskipti mín við fólkið hér hafa undantekningarlaust verið jákvæð. Það heilsar mér brosandi á hverjum morgni. Ég hef aldrei kynnst slíkri kurteisi.“

Kuldanum hafði fjölskyldan vanist í Pittsburgh. „Við vissum í lok ágúst að við værum á leið hingað. Við byrjuðum strax að leita okkur upplýsinga um landið: hvað væri hægt að gera, hvaða staði við þyrftum að skoða, hvernig veðrið væri og hvers konar föt við þyrftum. Síðan komumst við að því að þvert á það sem fólk heldur þá er veðrið hér ekki svo slæmt. Meðalhitinn hér á veturna er til dæmis hærri en í Pittsburgh, þar gat orðið mjög kalt.

Ég bjó mig undir myrkrið. Síðan spurði ég hvenær stysti dagur ársins væri og var svarað að hann væri búinn.“ 

Hlakkar til að prófa flugdrekabrettin á Leginum 
Ímynd Íslendinga af Brasilíu er yfirleitt bundin við samba, frumskóga og fótbolta. „Bandaríkjamenn hafa sömu ímynd af okkur. Brasilía er ekki mjög þekkt, ég get sagt þér að hún er allt öðruvísi.“

Fernando segist hafa fylgst með fótbolta en dottið út úr honum í Bandaríkjunum. Hann kunni að byrja aftur þar sem íþróttin sé stór hérlendis. Eitt hans helsta áhugamál eru svokölluð „flugdrekabretti“ eða „kite-surfing“. Þá sigla menn um öldurnar á brimbretti dregnir áfram af flugdreka sem þeir halda í. „Ég náði ekki að stunda það eins mikið og ég hefði viljað í Bandaríkjunum. Þetta veltur mikið á veðrinu og öðru slíku en þetta er uppáhaldið mitt. Og hvort sem þið trúið því eða ekki þá skilst mér að það sé hópur með svona bretti á Egilsstöðum. Það er starfsmaður hér sem hefur boðið mér að koma með þeim á Lagarfljótið, en mér skilst að það sé líka hægt að fara hér út á fjörðinn.

Íþróttin sem ég hef mest stundað síðustu þrjú ár er CrossFit. Ég er að komast aftur í gang í því, ég datt aðeins úr takti þegar við fluttum. Ég er farinn að mæta á Eyrina.“

Fernando er líka farinn að læra íslensku. „Mér gengur ágætlega en ég set markið ekki of hátt, ég veit að ég hef mikið að gera í vinnunni og ég er þreyttur í lok dags þegar tímarnir eru. Kennarinn minn, sem er heimamaður, kemur hingað út í álver tvisvar í viku þannig að ég geti klárað daginn alveg áður en ég fer heim og verið frjáls þar.

Það eru tvær megin ástæður fyrir að ég ákvað að læra íslensku. Í fyrsta lagi langar mig að sjá hvað ég get lært, kannski kem ég sjálfum mér á óvart og verð orðinn altalandi eftir þrjú ár. Það væri frábært. Ég vil alla vegana ekki sjá eftir því þá að hafa ekki reynt. Í öðru lagi þá finnst mér það að læra málið vera virðing gagnvart samfélaginu og menningunni, sem hefur sýnt mér mikla virðingu með að tala ensku til að létta mér lífið,“ segir Fernando, sem auk þess að tala portúgölsku og ensku lærði grunnatriðin í frönsku fyrir nokkrum árum.

Fjarðaál verði besta álver Alcoa 
Fernando er þriðji fastráðni forstjóri Alcoa Fjarðaáls síðan Magnús Þór Ásmundsson lét af störfum sumarið 2019, auk þess sem Smári Kristinsson stýrði því tímabundið áður en Fernando kom til starfa. Aðspurður segir hann erfitt að segja til um hversu lengi hann verði.

„Metnaður minn stendur til þess að halda áfram að vaxa innan Alcoa en mér liggur ekkert á. Ég hef mjög gaman af því sem ég er að gera núna og ef svo fer að ég verði hér í fjölda ára þá yrði ég ánægður með það. Ég hugsa aldrei nema eitt skref fram í tímann. Eins og ég hef sagt þá undirbjó ég mig undir að geta tekið við forstjórastarfi álvers, en ég hef ekki undirbúið mig undir neitt frekar enn.“

Fernando er ákveðinn þegar hann svarar hvernig hann sjái Fjarðaál fyrir sér eftir fimm ár. „Besta og stöðugasta álverið innan Alcoa. Svo einfalt er það. Það er vel raunhæft. Við höfum margt. Við höfum fólkið. Við erum nýjasta álverið. Þannig að fimm ár eru meira en nóg til að ná því markmiði.“