11. september 2018

Flúor í grasi undir viðmiðunarmörkum

Sumarið 2018 mældist flúor í grasi 35,1 µg F/g í grasi sem er undir 40 µg F/g viðmiðunarmörkunum í vöktunaráætlun álversins. Vel er fylgst með styrk flúors í grasi yfir sumartímann í Reyðarfirði til að tryggja sem best heilbrigði grasbíta í firðinum. Alls eru gerðar sex mælingar yfir sumartímann og að hausti er tekið meðaltal allra sýna til að finna út meðaltal sumarsins.

Mæliaðferðir

Starfsfólk Náttúrustofu Austurlands sér um eftirfylgni vöktunaráætlunar fyrir Fjarðaál en sú áætlun var gerð í samstarfi við Umhverfisstofnun. Samkvæmt áætluninni tekur NA sýni sex sinnum yfir sumarið á 34 stöðum í Reyðarfirði, þ.e. tvisvar í mánuði í júní, júlí og ágúst. Sýnin eru ávallt tekin á sama stað og með sömu aðferð svo þau séu samanburðarhæf.

Ýmsir þættir, svo sem veður, geta haft áhrif á mæliniðurstöðurnar og geta þær því verið mjög breytilegar á milli mælinga. Þess vegna eru tekin mörg sýni og svo metið út frá meðaltali þeirra hver styrkurinn hefur verið í gróðri yfir sumarið. Niðurstöður einnar sýnatöku og einstakir sýnatökustaðir segja okkur því afar takmarkaða sögu um hve hár eða lágur styrkurinn er.

Niðurstöður sumarsins 2018

Fyrstu mælingar sumarsins voru hærri en við megum venjast og mátti rekja það til einmuna veðurblíðu í byrjun sumars. Eftir því sem leið á sumarið fóru mælingarnar lækkandi og lokaniðurstaðan var vel innan viðmiðunarmarkanna sem er gleðiefni. „Við fögnuðum því að sumarið lék við okkur á Austurlandi en á sama tíma var það áskorun þegar kom að áhrifum útblásturs á gróður. Hitaskil í Reyðarfirði í heitu og stilltu veðri geta því miður haft áhrif til hækkunar á flúor í grasi og var þetta sýnilegt í þeim sýnum sem tekin voru fyrri hluta sumarsins,“ segir Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls og bætir við: „Útblástur frá álverinu yfir sumarmánuðina var hins vegar með minnsta móti, vel innan þeirra markmiða sem við höfum sett okkur og að sjálfsögðu innan marka starfsleyfis.“

Stöðugar umbætur

Fjarðaál er meðal þeirra álvera í heiminum sem hefur hvað lægstu flúorlosunina. Starfsfólk álversins vinnur að stöðugum umbótum á tækjabúnaði og vinnuferlum til að lágmarka útblástur og áhrif á umhverfið. „Starfsfólk lagði sitt af mörkum til að takmarka útblástur eins og kostur er á þessum viðkvæmasta tíma ársins og heildarniðurstaða sumarsins, 35,1 µg f/g gras er vel innan viðmiðunarmarka og ásættanleg niðurstaða,“ segir Magnús Þór. Á þessu ári hefur m.a. verið unnið í stóru fjárfestingarverkefni þar sem síupokum í reykhreinsivirki er skipt út fyrir nýja gerð með meira yfirborð og betri hreinsun. Flúorlosun álversins er langt undir starfsleyfismörkum það sem af er ári. Þá er rétt að geta þess að starfsleyfismörk eiga við um losun frá álverinu en mörk fyrir gróður eru viðmiðunarmörk sem sett eru í vöktunaráætlun álversins.

Heysýnataka framundan

Síðar í haust verður safnað sýnum úr heyi sem aflað var í Reyðarfirði í sumar og verður þá hægt að sjá hvert flúorinnihaldið er í þeirri fæðu sem dýrin neyta á ársgrundvelli. Heysýni hafa ávallt sýnt lág gildi í Reyðarfirði og má því reikna með að talan fyrir flúroinnihald í fæðu dýranna komi til með að lækka frekar. Samkvæmt skoðunum og rannsóknum dýralækna hafa til þessa engar vísbendingar komið fram sem gefa til kynna að flúor í Reyðarfirði hafi haft áhrif á grasbíta.

Alcoa setur sér mjög strangar kröfur í umhverfismálum og umhverfisvernd er þungamiðja í starfsemi fyrirtækisins um allan heim. Starfsfólk Fjarðaáls mun áfram vinna að stöðugum umbótum enda hvílir sú skylda á Alcoa að lágmarka sem kostur er þau áhrif sem starfsemin hefur á umhverfið. Að því vill Alcoa vinna með ábyrgum og sjálfbærum hætti, hér eftir sem hingað til.

Fjardaal_smelter_with_wildflowers