19. júlí 2018

Nýr raflausnarbíll kominn til Fjarðaáls

Fjarðaál hefur fengið afhentan nýjan raflausnarbíl, þann fyrri af tveimur sem eiga að leysa eldri raflausnarbíla af hólmi. Raflausnarbíll er notaður til að tryggja rétta raflausnarhæð í rafgreiningarkerum. Raflausn er þá ýmist soguð upp úr keri eða hellt í ker eftir þörfum. Raflausnina flytur bíllinn í stórri stálfötu sem kallast raflausnardeigla. Þess má geta að raflausnin er um 965 gráðu heit í rafgreiningarkerunum.

Raflausnarbíllinn er frá hollenska fyrirtækinu Hencon. Á heimasíðu fyrirtækisins er bent á að nýju raflausnarbílarnir dragi mikið úr hættu á truflunum í kerrekstri og skemmdum á kerum. Bíllinn sé liprur í akstri og vel fari um stjórnanda hans þar sem þægindi og fyrirtaks útsýni einkenni stjórnklefann. Við hönnun bílsins var sérstaklega tekið mið af endurgjöf frá reynslumiklum stjórnendum. Ein helsta nýjungin sem einkennir nýju bílana er lofttæmitækni sem auðveldar meðhöndlun raflausnar og veitir meiri nákvæmni og sjálfvirkni en eldri gerðir af bílunum.

Stefnt er að því að fulltrúar Hencon komi í ágúst til að fræða iðnaðarmenn á farartækjaverkstæði Fjarðaáls um viðhald bílanna og framleiðslustarfsmenn um notkun þeirra. Báðir bílarnir eiga að vera komnir í rekstur í september.

Á myndunum hér fyrir neðan sést nýi bíllinn.

RaflausnarbíllA
RaflausnarbíllA
RaflausnarbíllA
RaflausnarbíllA