15. júní 2018
Starfsmenn Fjarðaáls undirrita sáttmála um góða vinnustaðarmenningu
Sáttmáli um vinnustaðarmenningu Fjarðaáls var afhjúpaður í matsal Alcoa Fjarðaáls þann 29. maí sl.
Tómas Már Sigurðsson, framkvæmdastjóri álframleiðslusviðs Alcoa Corporation, sagði af þessu tilefni frá áherslum móðurfélagsins í jafnréttismálum. Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, sagði sáttmálann vera mikilvægan fyrir alla starfsmenn Fjarðaáls þó svo að kveikjan hafi verið staða kvenna.
Þannig er sáttmálinn sem starfsmenn undirrituðu:
Vinnustaðurinn okkar
- Við starfsmenn Alcoa Fjarðaáls gerum með okkur sáttmála um góða vinnustaðarmenningu þar sem heilindi, árangur og umhyggja eru höfð að leiðarljósi. Við stöndum vörð um jafnrétti á vinnustaðnum og líðum ekki mismunun, einelti, áreitni eða ofbeldi.
- Við sýnum hvert öðru vinsemd og virðingu í öllum samskiptum og metum framlag allra að verðleikum. Þannig myndum við gagnkvæmt traust og sköpum sálrænt öryggi fyrir alla.
- Við þorum að ræða saman um framkomu sem okkur mislíkar og hjálpumst að við að setja mörk í samskiptum. Við erum til staðar hvert fyrir annað, tilbúin að hlusta og veita stuðning. Við skiljum að upplifun einstaklinga er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.
- Við leiðum ekki hjá okkur óheilbrigð samskipti og bregðumst strax við þegar brotið er gegn vinnufélögum okkar. Við sýnum hugrekki og stígum fram til stuðnings þeim sem brotið er gegn. Við vitum að meðvirkni með geranda getur gert illt verra.
Hér fyrir neðan eru myndir af starfsmönnum Fjarðaáls sem skrifuðu undir sáttmálann eftir athöfnina en öllum starfsmönnum gefst kostur á að undirrita hann næstu daga.
Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Fjarðaáls, mundar pennann.
Tómas Már Sigurðsson, framkvæmdastjóri álframleiðslusviðs Alcoa Corporation ávarpaði starfsmenn.