12. maí 2018

Alcoa og Rio Tinto kynna fyrsta kolefnislausa framleiðsluferli áls á heimsvísu

(Fréttatilkynning frá Alcoa Corporation)

Alcoa Corporation og Rio Tinto kynntu þann 10. maí byltingarkennda aðferð við framleiðslu áls sem losar frá sér súrefni og útrýmir allri beinni losun gróðurhúsalofttegunda frá framleiðslunni.

Stjórnendur Alcoa, Rio Tinto og Apple stóðu að fréttamannafundi þar sem tilkynnt var um samvinnuverkefni fyrirtækjanna sem felur í sér merkilegustu nýsköpun í áliðnaðinum í meira en heila öld. Meðal viðstaddra voru forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau og Phillippe Coulliard, forsætisráðherra Québec-fylkis.

Í því skyni að auðvelda þróun og markaðssetningu hinnar nýju vinnsluaðferðar í stærra mæli, stofnuðu Alcoa og Rio Tinto í sameiningu fyrirtækið Elysis en það mun þróa aðferðina svo hægt sé að hefja sölu á henni ásamt tæknibúnaði á árinu 2024.

Elysis verður með höfuðstöðvar í Montréal og rannsóknarstofu í Saguenay-Lac-Saint-Jean héraði í Quebéc en fyrirtækið mun þróa tæknina og fá einkaleyfi á henni þannig að hægt verði að nota hana til að endurhanna álver sem þegar eru til eða reisa ný álver byggð á henni.

Þegar tæknin hefur verið fullþróuð og innleidd mun hún útrýma beinni losun gróðurhúsalofttegunda frá framleiðsluferli áls og styrkja enn frekar sambandið milli álframleiðenda í Kanada og Bandaríkjunum. Nýja samvogunarfélagið mun einnig selja réttindavarin efni í forskaut og bakskaut sem endast 30 sinnum lengur en hefðbundin efni.

Kanada og Quebec-fylki fjárfesta hvort um sig 60 milljónir Kanadadollara (u.þ.b. 4,8 milljarða króna) í Elysis.

Apple leggur til 13 milljónir Kanadadollara í fyrirtækið (um einn millljarð króna). Fyrirtækið hafði milligöngu um samstarf Alcoa og Rio Tinto um kolefnislausa ferlið og Apple hefur samþykkt að veita samvogunarfélaginu tæknilega aðstoð.

Alcoa og Rio Tinto munu hvort fyrir sig leggja fram 55 milljónir Kanadadollara (4,4 milljarða króna) á næstu þremur árum ásamt sérstökum hugverkarétti og einkaleyfum.

Tæknin sem Alcoa hefur þróað og fengið einkaleyfi fyrir, er þegar notuð til þess að framleiða ál í tæknigarði Alcoa skammt frá Pittsburgh í Bandaríkjunum þar sem framleiðsluferlið hefur verið í þróun frá árinu 2009. Samvogunarfyrirtækið hyggst fjárfesta um 40 milljónir Kanadadollara í Bandaríkjunum, sem fara m.a. í að byggja upp aðfangakeðju fyrir réttindavarin efni í forskaut og bakskaut.

Vincent Christ, sem á að baki 30 ára feril hjá Rio Tinto Aluminium, hefur verið skipaður forstjóri Elysis. Starfið sem hann gegndi síðast hjá fyrirtækinu fólst í stjórnun tækni-, rannsóknar- og þróunardeildar þess.

Tilvitnanir

„Áliðnaðurinn hefur lengi beðið eftir þessari uppgötvun og tilkynningin sem nú er send út er árangur margra ára þróunarstarfs einarðra starfsmanna Alcoa. Í dag tekur við nýr áfangi í frumkvöðlastarfsemi okkar þar sem við færum sjálfbærnieiginleika álsins mörgum skrefum framar. Hér höfum við tækifæri til þess að draga töluvert úr kolefnisfótspori ýmiss konar framleiðsluvöru, meðal annars bíla og raftækja.“
Roy Harvey, forstjóri og stjórnarformaður Alcoa

„Hér er um byltingarkennt álbræðsluferli að ræða og það getur dregið umtalsvert úr losun kolefna. Það byggist á lykilhlutverki áls í framfarasögu mannkynsins með því að framleiða vörur sem er endalaust hægt að endurvinna: þær eru sterkari, léttari og brenna minna eldsneyti. Við hjá Rio Tinto erum stolt af því að vinna með Alcoa, Apple og ríkisstjórnum Kanada og Quebec að nýsköpun sem getur gerbreytt áliðnaðinum og aðfangakeðju viðskiptavina okkar.“
Forstjóri Rio Tinto, J-S Jacques

„Þessi tilkynning þýðir að það munu skapast og viðhaldast þúsundir starfa fyrir Kanadabúa. Aðferðin mun draga umtalsvert úr kolefnisfótspori Kanada og styrkja áliðnaðinn í Norður-Ameríku. Þetta er sannarlega sögulegur dagur fyrir áliðnaðinn - og fyrir alla starfsmenn í áliðnaði í Kanada - sem gegna mjög mikilvægu hlutverki í hagkerfi okkar og framtíð landsins.“
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada

„Opnun þessarar nýju starfsstöðvar þýðir að Québec muni eftir sem áður vera í fararbroddi á heimsvísu varðandi tæknilega þróun nýrra aðferða í álbræðslu. Fjárfestingin okkar skiptir miklu máli í þróun þessarar kolefnislausu tækni á stórum mælikvarða fyrir álver, þannig að hægt sé að nýta hana og skila mikilsverðum árangri í umhverfismálum á sama tíma og vel launuð hátæknistörf skapast hér í Québec.“
Forsætisráðherra Québec, Philippe Couillard

„Apple hefur sett sér að styrkja nútíma tæknilausnir sem bæta lífið á plánetunni okkar og vernda hana fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Við erum stolt af því að taka þátt í þessu verkefni og hlökkum til þess dags sem við getum notað ál til þess að framleiða afurðir okkar án losunar gróðurhúsalofttegunda.“
Tim Cook, forstjóri Apple

 

Elysis-logo

Smelltu hér til að sjá meiri upplýsingar um hið nýstofnaða fyrirtæki.