17. apríl 2018

Samfélagsskýrsla Alcoa Fjarðaáls 2017 er komin út

Á hverju ári skilar Alcoa Fjarðaál inn grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar, ásamt skýrslu sem Náttúrustofa Austurlands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands vinna fyrir fyrirtækið. Á síðasta ári varð sú breyting að grænu bókhaldi er ekki skilað einu og sér, heldur er það hluti af samfélagsskýrslu Alcoa Fjarðaáls.

Ástæðan fyrir því að Alcoa Fjarðaál velur að gera samfélagsskýrslu er sú að fyrirtækið vill auka gegnsæi og upplýsingagjöf um starfsemi fyrirtækisins og áhrif hennar á umhverfi, samfélag og efnahag. Við skýrslugerðina eru viðmið Global Reporting Initiative (GRI G4) höfð til hliðsjónar en skýrslan er unnin í samstarfi við vottaðan GRI ráðgjafa. Markmiðið er að skýrslan uppfylli alþjóðlega staðla um samfélagsábyrð

Alcoa setur sér mjög strangar kröfur í umhverfismálum og umhverfisvernd er þungamiðja í starfsemi fyrirtækisins um allan heim. Fyrirtækið vinnur að stöðugum umbótum og er meðvitað um þá ábyrgð að lágmarka þau áhrif sem starfsemin hefur á umhverfið.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Fjarðaáls, segir m.a. í ávarpi sínu í skýrslunni: „Við hjá Fjarðaáli gerum okkur grein fyrir mikilvægi fyrirmynda í samfélaginu og með aukinni áherslu á samfélagsábyrgð og nánu sambandi við nærsamfélagið viljum við hvetja önnur fyrirtæki til góðra verka með sjálfbærni að leiðarljósi.“

20% minni losun PFC
Í ávarpi sínu segir Magnús Þór: „Fyrirtækið náði mjög góðum árangri í umhverfismálum og rekstri á síðasta ári. Fjarðaál skipar sér í hóp fimm bestu álvera í heimi hvað varðar losun flúors og er vel innan þeirra starfsleyfismarka sem sett eru af Umhverfisstofnun.Þá lækkaði losun svokallaðra PFC gróðurhúsalofttegunda um 20% frá fyrra ári þrátt fyrir aukningu Í álframleiðslu á milli áranna 2016 og 2017.“

Jafnlaunavottun og menntaverðlaun
Magnús Þór segir að Fjarðaál greiði konum og körlum sömu laun fyrir sömu vinnu og á árinu hafi það verið staðfest með jafnlaunavottun velferðaráðuneytisins en Fjarðaál var fyrsta stórfyrirtækið hér á landi til að hljóta þá vottun.

„Fjarðaál styður markvisst við menntun starfsmanna og hvetur konur og karla til þátttöku í öllum störfum. Menntastefna fyrirtækisins var verðlaunuð af Samtökum atvinnulífsins á síðastliðnu ári þegar Fjarðaál hlaut Menntaverðlaunatvinnulífsins,“ segir Magnús jafnframt.

Ný síða fyrir Samfélagsskýrslur Fjarðaáls
Alcoa Fjarðaál vill leggja áherslu á gegnsæi og að gera almenningi kleift að fylgjast með starfseminni. Því hefur verið sett upp sérstök síða, samfelagsskyrsla.is, þar sem nálgast má samfélagsskýrslur fyrirtækisins. Þar er hægt að skoða Samfélagsskýrsluna 2017, sem er 48 síðna myndskreytt blað, í gagnvirku formi eða sem pdf-skjal.

Til þess að skoða Samfélagsskýrsluna 2016, sem er 38 síðna myndskreytt blað, ásamt Grænu bókhaldi fyrri ára, vinsamlegast smellið hér.

 

2017_samfelagsskyrsla_forsida