13. mars 2018

Betri gönguleiðir og minni ágangur á Víknaslóðum

Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystra fékk 400.000 króna styrk frá samfélagssjóði Alcoa Fjarðaáls árið 2016 til verkefnis sem nefndist „Viðhald og uppbygging innviða göngusvæðisins á Víknaslóðum við Borgarfjörð eystri með tilliti til ágangs ferðamanna.“ Nú er verkefninu lokið og Hafþór Snjólfur Helgason, formaður ferðamálahópsins segir frá því hvernig hafi til tekist. „Styrknum var ráðstafað í fjögur verkefni: Efni og vinnu við að útbúa nýjar stikur og merkingar, endurútgáfu gönguleiðakorts, endurprentun á merkingum í upphafspósta og vinnu við endurmerkingu gönguleiða.“

Stikur og gönguleiðakort

„Sumarið 2017 lögðum við áherslu á að endurmerkja og viðhalda gönguleiðum á Dyrfjallasvæðinu og var það verkefni framkvæmt í samvinnu við Ungmennafélag Borgarfjarðar sem stóð fyrir fyrsta Dyrfjallahlaupinu síðastliðið sumar. Þar voru settar niður nýjar stikur og eldri og brotnar fjarlægðar. Auk þess var leiðin færð á kafla ofan Njarðvíkur til þess að beina göngufólki og hlaupurum og öruggara svæði sem þolir meiri ágang,“ segir Hafþór Snjólfur.

Þá var gönguleiðakort Víknaslóða endurútgefið síðastliðið sumar með uppfærðum upplýsingum til þess að auka öryggi göngufólks og einnig var prentað einfaldara „bæjarkort” af Borgarfirði sem var dreift frítt til ferðamanna.

Upphafspóstar og endurmerkingar gönguleiða

Hafþór Snjólfur segir: „Vegna breytinga á gönguleiðum  þurftum við að uppfæra alla upphafspósta fyrir göngu- og hlaupaleiðir í kringum Dyrfjöll. Í samvinnu við heimamenn og landeigendur létum við prenta lítil skilti á álplötur sem var komið fyrir á upphafspóstum um allt göngusvæðið í Borgarfirði. Þar er fólki bent á að næturdvöl utan merktra svæða er óheimil, og einnig eru tilmæli til göngufólks að virða óskir landeigenda um að halda sig á merktum leiðum. Þetta var algjör nauðsyn, enda hefur straumur ferðamanna aukist á Víknaslóðum undanfarin ár. Það eykur öryggi ferðamanna og minnkar áreiti sem landeigendur verða fyrir.“

Að lokum segir Hafþór Snjólfur: „Viðbót við verkefnið var opið málþing sem við héldum í mars 2017 um sjálfbærni gönguferðamennsku á Víknaslóðum og við ræddum framtíðaruppbyggingu svæðisins.

Ferðamálahópur Borgarfjarðar þakkar Alcoa fyrir styrkveitinguna og vonast eftir áframhaldandi samstarfi á komandi árum. Svona styrkir halda okkar starfi gangandi.“

 

Merkt á leiðinni í Stórurð frá Borgarfirði
Merkt á leiðinni í Stórurð frá Borgarfirði.

 

Á leiðinni í Grjótdalsvarp frá Borgarfirði

Á leiðinni í Grjótdalsvarp frá Borgarfirði.