02. febrúar 2018

Söfnun áls í sprittkertum heldur áfram

Góðar undirtektir voru við tilraunaátaki um söfnun áls í sprittkertum, sem stóð yfir í desember og janúar. Yfirskrift átaksins var „Gefum jólaljósum lengra líf.“ Tilgangurinn með átakinu var að efla vitund þjóðarinnar um mikilvægi þess að flokka og endurvinna það ál sem fellur til hjá heimilum og fyrirtækjum.

Skemmst er frá því að segja að þau fyrirtæki og samtök sem stóðu að endurvinnsluátakinu hafa ákveðið að halda áfram söfnun áls í sprittkertum og gera þetta að varanlegum kosti í flokkun og endurvinnslu hér á landi. Að átakinu standa Endurvinnslan, Fura, Gámaþjónustan, Grænir skátar, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samtök iðnaðarins, Samál og Sorpa.  

Almenningi stendur því áfram til boða að skila álinu í sprittkertum á um 90 endurvinnslu- og móttökustöðvar um allt land á vegum Endurvinnslunnar, Gámaþjónustunnar, Íslenska gámafélagsins og Sorpu. Einnig má skila því í um 120 dósagáma Grænna skáta á höfuðborgarsvæðinu. Loks má setja álbikarana eins og aðra málma sem til falla á heimilum í grænar tunnur Íslenska gámafélagsins og endurvinnslutunnur Gámaþjónustunnar. Tekið er á móti kertavaxi hjá Plastiðjunni Bjargi – iðjuþjálfun og Öldunni Borgarnesi og ný kerti unnin úr því.

Innan fárra vika skýrist betur hversu mikið af áli safnaðist í átakinu, en tíma tekur að safna því öllu á einn stað. Ljóst er að afraksturinn dugar í ófáar íslenskar pönnukökupönnur, en í eina slíka þarf um 700 sprittkerti. Allt ál sem safnast hérlendis fer til endurvinnslu, en á næstu vikum ræðst hvað verður um álið sem safnaðist í átakinu.

Kosturinn við endurvinnslu áls er að það má endurvinna aftur og aftur án þess að það tapi upprunalegum gæðum. Þar sem til þess þarf einungis 5% af orkunni sem fór í að framleiða það upphaflega, þá skapast við það mikil verðmæti fyrir endurvinnsluiðnaðinn í heiminum. Þá dregur endurvinnsla áls verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, en í álframleiðslu verður almennt mest losun við orkuvinnsluna.

Umfjöllun um átakið má finna á heimasíðu Samáls: http://www.samal.is/is/endurvinnum-alid og spurt & svarað: http://www.samal.is/is/frettir/spurt-svarad-um-endurvinnsluatak-sprittkerta. Þá eru upplýsingar á facebook:  https://www.facebook.com/endurvinnumalid/.

 

180202 samal_sprittkerti_sorpa

Myndin er frá móttöku áls í sprittkertum á Sorpu Sævarhöfða, en tekið er á móti álinu í sprittkertum á hátt í 90 endurvinnslustöðvum um allt land.